Heilsuvernd og Miðstöð Meltingarlækninga í Glæsibæ eru í samstarfi á sviði forvarna gegn ristilkrabbameini hjá einstaklingum.

Markmið þessa samstarfs er að vinna ötullega að fræðslu til einstaklinga um ristilkrabbamein og hvetja þá sem eru í skilgreindum áhættuhópum til skimunar samkvæmt klínískum leiðbeiningum Landlæknisembættisins. Þannig mun á markvissan hátt reynt að fækka dauðsföllum og hafa áhrif á nýgengi ristilkrabbameins hérlendis, bæta lífsgæði einstaklinga og stuðla að sparnaði vegna meðferðar slíkra meina.

Mikilvægi þess að geta fækkað dauðsföllum af völdum krabbameina er öllum ljóst.  Krabbamein í ristli og endaþarmi eru í dag orsök mikils heilsutjóns og eru önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina meðal Íslendinga. Stórar rannsóknir þar sem einstaklingum hefur verið fylgt eftir í nálægt tvo áratugi hafa sýnt að fækka má dauðsföllum af völdum þessarra krabbameina með skimun þar sem leitað er að blóði í hægðum eða með ristilspeglun.

Skimun hefur nú þegar verið hafin í mörgum löndum í kringum okkur en ristilkrabbamein uppfyllir öll skilyrði réttlætingar fyrir henni, en þau  helstu eru eftirfarandi;

  1. Um er að ræða sjúkdóm sem er algengur og veldur miklu heilsufarstjóni eða dauðsföllum.
  2. Skimunaraðferðir geta greint sjúkdóminn á læknanlegum forstigum, eru ásættanlegar fyrir sjúklinginn og auðveldar í framkvæmd.
  3. Sýnt er að meðferð sjúkdómsins sem greinist í kjölfar skimunar er árangursríkari en án skimunar
  4. Ávinningur skimunar vegur þyngra en mögulegur skaði og kostnaður vegna hennar

Heilsuvernd hefur í gegnum almenna fræðslu og vef sinn www.doktor.is stuðlað að árvekni um sjúkdóminn, en einnig með markvissum heilsufarsskoðunum og áhættumati einstaklinga.

Miðstöð meltingarlækninga mun taka að sér að sjá um ristilspeglanir einstaklinga sem samkvæmt klínískum leiðbeiningum eiga að undirgangast rannsóknina.  Þess utan munu læknar þeirra stýra meðferð og eftirfylgd sjúklinga sem kunna að greinast, í samvinnu við þar til bæra aðila.

Allar frekari upplýsingar í gegnum síma 510-6500 eða á tölvupósti hv@hv.is

HAFÐU SAMBAND

Einni er hægt að senda okkur línu á hv@hv.is eða hringja í síma 510 6500.