Fara á efnissvæði

Að flytja inn

Á Heilsuvernd Vífilsstöðum eru rekin 45 biðrými fyrir einstaklinga sem hafa lokið læknisfræðilegri meðferð á Landspítala, eru komnir með samþykkt færni- og heilsumat og bíða eftir að fá boð um varanlega búsetu á hjúkrunarheimili. 

Aðstaðan

Þegar nýir skjólstæðingar koma byrja þeir oft á því að vera í tví- eða þríbýli en færast oftast í einbýli eftir einhvern tíma. Í undantekningar tilvikum getum við þurft að færa einstakling á milli herbergja eða milli hæða. Herbergin á Heilsuvernd Vífilsstöðum eru misstór. 

Dvalartími

Dvalartími á Vífilsstöðum getur verið allt frá nokkrum dögum og upp í heilt ár en meðaldvalartími er um þrír mánuðir. Mislangur biðtími er vegna þess að biðlisti er mislangur inn á hjúkrunarheimili. Þess vegna mælum við alltaf með því að vera búin að kynna sér hjúkrunarheimilin vel og sækja um á a.m.k. þremur heimilum þar sem löng bið er ekki auðveld.

Gert er ráð fyrir því að skjólstæðingur þiggi pláss þegar boð kemur og oftast er skammur fyrirvari á flutningum. 

Hvað á ég að hafa með mér?

Heilsuvernd Vífilsstaðir eru ekki eiginlegt heimili með persónulegum munum og skipulagðri dagskrá eins og hjúkrunarheimili eru. Ekki er ætlast til að skjólstæðingar komi með t.d. húsgögn og stærri hluti að heiman en sjálfsagt er að koma með t.d. ljósmyndir og minni hluti til að gera rýmið persónulegra. Margir kjósa að koma með útvarp, spjaldtölvu eða bækur. Öll einbýli eru með sjónvarpi. 

Þú þarft einnig að koma með þín föt og eigin snyrtivörur s.s. tannkrem, tannbursta, hárgreiðu, rakvél, ilmvatn o.fl.  Það er á  ábyrgð aðstandenda að passa að rafhlöður fyrir heyrnatæki séu til staðar. 

Fatnaður og þvottur

Þeir sem dvelja á Heilsuvernd Vífilstöðum fá aðstoð við að klæða sig að morgni og eru allir hér í eigin fötum. Það er partur af sjálfsmyndinni að klæðast eigin fötum en ekki vera í sjúkrahúsfötum og upplifa sig sem sjúkling. 

Ekki er þvegið af fólki hér, aðstandendur sjá um að þvo þvott en sé þess óskað aðstoðum við þá sem kjósa að senda þvott í þvottahús. 

Góð regla er að merkja föt með upphafsstöfum viðkomandi. 

Ábyrgð á verðmætum

Heilsuvernd Vífilsstaðir bera ekki ábyrgð á peningum og eigum skjólstæðinga s.s. skartgripum, heyrnatækjum, gleraugum og tanngómum ásamt öðrum persónulegum munum sem kunna að tapast eða skemmast. 

Við viljum benda á að óæskilegt er að geyma mikla fjármuni inni á herbergjum eða verðmæta muni.

Bjöllukerfi

Allir skjólstæðingar fá að láni öryggishnapp sem þeir geta haft við höndina til að hringja eftir aðstoð hvenær sem er sólarhringsins.

Öryggishnapparnir eru tengdir við vinnusíma starfsfólks og því eðlilegt að þið sjáið starfsfólk mikið með síma á lofti.

Mikilvægt er að muna að skilja öryggishnapp og hleðslutæki eftir þegar viðkomandi flytur á hjúkrunarheimili. 

Þagnarskylda

Það sem þú kannt að sjá eða heyra um aðra skjólstæðinga sem dvelja á Heilsuvernd Vífilsstöðum heldur þú fyrir sjálfan þig. 

Ekki er leyfilegt að ræða slík mál utan Heilsuvernd Vífilsstaði, taka ljósmyndir eða upptökur af einstaklingum án leyfis þeirra. Slíkt varðar við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. 

Brot á ofangreindum lögum geta verið kærð til lögreglu.

Fjölmenningarvinnustaður

Heilsuvernd Vífilsstaðir er fjölmenningarvinnustaður og hér starfar fólk af ýmsum þjóðernum. 

Margir hafa búið á Íslandi lengi og tala góða íslensku en aðrir eru enn að læra og tjá sig því meira á ensku. Þrátt fyrir mögulega tungumálaörðugleika starfar allt starfsfólk með það að leiðarljósi að veita góða umönnun, sýna virðingu og nærgætni í samskiptum. Við biðjum ykkur því að sýna okkur og þeim skilning.

Ef þið treystið ykkur ekki til eða skiljið ekki viðkomandi starfsmann, er alltaf hægt að sækja annan starfsmann eða leita til vaktstjóra.