Fara á efnissvæði

Heilbrigðisþjónusta

Skjólstæðingar okkar fá þá umönnun, þjálfun og eftirlit sem þeir þurfa, á meðan þeir dvelja hjá okkur.

Skjólstæðingar okkar fá þá umönnun, þjálfun og eftirlit sem þeir þurfa, á meðan þeir dvelja hjá okkur. Hægt er að veita flestar meðferðir á Heilsuvernd Vífilsstöðum t.d. blóðgjöf, sýklalyfjagjafir o.fl.. Ef um bráð alvarleg veikindi er að ræða eða ef einstaklingur dettur og hlýtur beinbrot er viðkomandi sendur aftur á Landspítala. 

Læknisþjónusta

Læknisþjónusta fyrir þá sem dvelja á Heilsuvernd Vífilsstöðum er þrisvar í viku en þess utan er alltaf læknir á bakvakt. 

Ef um bráð alvarleg veikindi er að ræða eða ef einstaklingur dettur og hlýtur beinbrot er viðkomandi sendur aftur á Landspítala. 

Í starfsemi okkar er ekki gert ráð fyrir fjölskyldufundum með lækni þar sem búið er að ljúka læknisfræðilegri uppvinnslu við komu á Heilsuvernd Vífilsstaði en sé þess óskað reynum við að mæta þeim óskum.

Athugið að Heilsuvernd Vífilsstaðir greiða ekki fyrir bókaða tíma hjá sérfræðingum utan Vífilsstaði s.s. augnlæknum, tannlæknum, hjartalæknum o.fl. nema að tilvísun til þeirra sérfræðinga komi frá læknum Heilsuverndar.

Hjúkrunarþjónusta

Hjúkrunarfræðingar eru á vakt allan sólarhringinn. Í einstaka tilfellum er ekki hjúkrunarfræðingur í húsi að næturlagi en þá er alltaf hjúkrunarfræðingur á bakvakt. 

Aðstandendur geta ávallt snúið sér til vaktahafandi hjúkrunarfræðinga á hverri vakt hafi þeir spurningar um sitt fólk og einnig leggja hjúkrunarfræðingar áherslu á að hafa símasamband við þann sem skráður er nánasti aðstandandi ef breytingar verða á heilsu og líðan ástvinar.

Hjúkrunarfræðingar setja fram hjúkrunaráætlun sem tryggir að hjúkrunarþörfum skjólstæðinga sé fullnægt.

Sjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfun er staðsett á 1. hæð og er í boði fjórum sinnum í viku.

Læknir gerir beiðni um sjúkraþjálfun ef um einstaklingsþjálfun er að ræða en allir geta tekið þátt í hópþjálfun s.s. stólaleikfimi o.fl.

Markmið með sjúkraþjálfun er að viðhalda líkamlegri færni og getu. Sjúkraþjálfarar meta þörf fyrir hjálpartæki og útvega þau tæki sem þörf er fyrir.

Athugið að sjúkraþjálfun hentar ekki öllum.

Bjöllukerfi

Allir skjólstæðingar fá að láni öryggishnapp sem þeir geta haft við höndina til að hringja eftir aðstoð hvenær sem er sólarhringsins.

Öryggishnapparnir eru tengdir við vinnusíma starfsfólks og því eðlilegt að þið sjáið starfsfólk mikið með síma á lofti. Mikilvægt er að muna að skilja öryggishnapp og hleðslutæki eftir þegar viðkomandi flytur á hjúkrunarheimili. 

Lífslokameðferð

Ef heilsufari hrakar svo mikið að ekki er útlit fyrir að viðkomandi nái sér aftur þá sinnum við einnig lífslokameðferð hér ef við á. Lífslokameðferð á við um síðustu daga eða vikur lífs. Markmið meðferðar er þá að draga úr einkennum og vanlíðan og viðhalda reisn. Við lífslok eru tryggð ákveðin gæði í hjúkrun og meðferð með þverfaglegri meðferðaráætlun fyrir deyjandi.

Hafa samband

Tekið er á móti fyrirspurnum í síma 590-3800. 
Einnig er hægt að hafa samband við vakthafandi hjúkrunarfræðing í síma 612-4994 /617-0508.