Jóhanna Kristín Jónsdóttir, sálfræðingur
Jóhanna Kristín gekk til liðs við sálfræðinga Heilsuverndar árið 2018 og sinnir meðferð fullorðinna einstaklinga og ungmenna. Hún miðar skjólstæðingahópinn við aldurinn eftir að grunnskóla lýkur. Jóhanna Kristín hefur sinnt meðferð við kvíða, lágu sjálfsmati, depurð, kulnun og afleiðingum áfalla. Hún hefur mikinn áhuga á að aðstoða fólk við að takast á við breytingar í lífi sínu og yfirstíga hindranir sem hamla lífsgæðum og almennri vellíðan.
Jóhanna Kristín kemur einnig að ráðgjöf til fyrirtækja í samvinnu við aðra sálfræðinga teymisins. Jóhanna Kristín er á þjónustusamningi við VIRK og sinnir skjólstæðingum þeirra.
Jóhanna Kristín fékk sálfræðiréttindi árið 2004 frá Háskóla Íslands og hefur starfað við barnageðvernd í um tólf ár og við geðvernd fullorðinna nú í um fimm ár. Hún starfaði á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar LSH frá 2005-2011 í almennu teymi og bráðateymi. Þar sinnti hún greiningum og meðferð helstu geð- og hegðunarraskana barna og unglinga og veitti foreldrum ráðgjöf. Hún sinnti samráðskvaðningu og var ráðgefandi sálfræðingur við Barnaspítala Hringsins. Jóhanna Kristín kom á fót meðferðarúrræðinu ,,Heilsuhópur‘‘ fyrir unglinga í yfirþyngd í samvinnu við fagaðila BUGL og var í forsvari rannsóknar á gagnsemi þess.
Jóhanna Kristín hóf sjálfstæðan rekstur eigin stofu, Barnageð sálfræðistofu og starfrækti hana á árunum 2011-2015. Stofan var fyrst staðsett í Lækningu, svo hjá Sálfræðingum Höfðabakka og síðast í Bæjarlind Kópavogi. Hún gerði hlé á rekstri stofunnar og hóf meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst og stundaði það frá 2015-2017. Á námstímanum var hún jafnframt sálfræðingur háskólans og veitti nemendum og starfsfólki skólans sálfræðiþjónustu sem fólst í handleiðslu, einstaklingsviðtölum og námskeiðahaldi. Meistaraverkefni hennar úr menningarstjórnun fjallaði um mótun listrænnar sjálfsmyndar hjá stúlkum sem höfðu lengi sungið í kór.
Jóhanna Kristín hefur víða haldið fyrirlestra og erindi fyrir fagaðila og almenning. Má þar nefna:
- Birtingarmynd kvíða hjá börnum
- EMDR og meðferð barna
- Sjálfsmynd og líðan
- Sjálfstraust og samskipti
- Samskipti og samvinna í teymum
- Streita og kulnun í starfi
Jóhanna Kristín hefur mikla viðbótarmenntun á sviði meðferðarsálfræði og nýtir þær aðferðir sem hún telur henta hverjum skjólstæðingi og þeim vanda sem hann er að takast á við. Má þar nefna aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar, EMDR áfallameðferð og klíníska dáleiðslu. Hún er meðlimur í Félagi sjálfstætt starfandi sálfræðinga (FSS) og Dáleiðslufélagi Íslands (DÍ).
Menntun
2017: MA í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst
2015: Alhliða þjálfun í klínískri dáleiðslu hjá Dr. Michael Yapko í samstarfi við EHÍ
2011: EMDR áfallameðferð Level 1 og 2 á vegum HAP organization
2008: Sérnám í Hugrænni atferlismeðferð hjá Oxford Cognitive Center í samstarfi við EHÍ
2004: Cand Psych námsgráða í Sálfræði frá Háskóla Íslands
2001: BA í Sálfræði frá Háskóla Íslands
Rannsóknir
2017
,,Hvaða augum lít ég sjálfa mig?“ Áhrif langvarandi þátttöku ungra kvenna í kórstarfi á mótun listrænnar sjálfsmyndar, merkingarbær reynsla þeirra og væntingar til frama á sviði söngsins. Rannsókn til MA gráðu í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.
2011
,,Unglingar í yfirþyngd og fjölskyldur þeirra: Leið til betra lífs og bættrar heilsu“. Rannsókn á hópmeðferðarúrræði fyrir unglinga í yfirþyngd á BUGL.
2004
,,Framburður barna í rannsóknarviðtali: Minnisgeta í ljósi aldurs og þroska”. Rannsókn á framburði barna í Barnahúsi til Cand Psych prófs í sálfræði við Háskóla Íslands.
2001
,,Börn og kynferðisbrot: Framburður barns í rannsóknarviðtali, orðalag ákæru og lyktir máls“, ásamt Þorbjörgu Sveinsdóttur. Rannsókn til BA gráðu í sálfræði við HÍ.
Ritaskrá
2009
Journal of Forensic Psychiatry and Psychology; ,,The ability of suspected victims of Childhood
Sexual Abuse (CSA) to give evidence. Findings from the Children´s House in Iceland” (RJFP-2009-0016). Meðhöfundar; Gísli H. Guðjónsson prófessor, dr. Jón F. Sigurðsson og Þorbjörg Sveinsdóttir.
Áhugamál
Jóhanna Kristín stundar söngnám hjá sönghúsinu Domus Vox og er meðlimur í kvennakórnum Vox Feminae undir stjórn Hrafnhildar Árnadóttur Hafstað. Hún lærði olíumálun hjá Myndlistarskóla Kópavogs og bregður sér stundum í gönguskóna til að næra huga og líkama með góðri útiveru.