Fara á efnissvæði

Fyrsta viðtal 

Þegar komið er í fyrsta viðtal er eðlilegt að upplifa óöryggi. Sálfræðingurinn mun taka vel á móti þér og útskýra hvernig viðtölum er háttað. Fyrsta viðtal er nýtt í að kynnast einstaklingnum betur og góð upplýsingasöfnun fer fram. 

Athugið að stéttarfélög taka nær undantekningalaust þátt í niðurgreiðslu viðtala. Auk þess aðstoðar félagsþjónusta sveitarfélagana við að niðurgreiða kostnaðinn í mörgum tilfellum. Við hvetjum alla eindregið til að kanna réttindi sín hjá sínu stéttarfélagi og hjá Sjúkratryggingum Íslands. 

Einstaklingsviðtal

Sumir sem leita sálfræðings koma vegna afmarkaðs vanda s.s. samskiptavanda á vinnustað. Aðrir koma að leita sér meðferðar við vanda sem hrjáir þá í daglegu lífi, eins og kvíða eða þunglyndi. Áður en meðferð hefst er mikilvægt að kortleggja vandann vel og til þess þarf góða sögu. Sagan leggur grunninn að meðferðarvinnunni. Það fer síðan eftir eðli vandans hversu löng meðferðin getur orðið. Einstaklingsviðtal tekur að jafnaði um 50 mínútur. 

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er það meðferðarform sem oftast er beitt á kvíða og þunglyndi hjá okkur. HAM er oftast skammvinn meðferð þar sem unnið er markvisst að úrlausn vanda. Fjölmargar rannsóknir hafa rennt stoðum undir árangur meðferðarinnar og er mælt með henni sem fyrsta inngripi við kvíðarösknum áður en lyfjameðferð er reynd. Í meðferðinni skoða sálfræðingurinn og skjólstæðingur hans samhengið á milli hugsana, tilfinninga, líkama og hegðunar. Oft er um að ræða neikvæðar hugsanir sem eiga rætur að rekja til einhvers grunnviðhorfs sem fólk hefur um hluti, aðstæður og/eða fólk. Grunnviðhorfið er þó oft alls ekki staðreynd í raunveruleikanum og saman prófa sálfræðingurinn og skjólstæðingur hans sannleiksgildi viðhorfsins. 

Hópviðtal

Stundum kemur það fyrir að vandamál koma upp í hóp eða ákveðinn hópur verður fyrir sömu upplifun. Hvort um sig gæti verið ástæða til að hittast með aðstoð fagaðila og reyna annað hvort að leysa úr ágreiningi eða upplifa stuðning hvort af öðru í viðtalinu ef reynslan er sameiginleg. Í hópviðtali þarf að gæta þess að allir fái tækifæri til þess að tjá sig. Einstaklingar geta upplifað sömu reynsluna á mismunandi hátt og haft þörf til þess að ræða og opna á sína upplifun. Þess vegna eru þessi viðtöl yfirleitt 75 – 100 mínútur í stað 50 mínútna. 

Greiningarviðtal

Í greiningarviðtalinu er lagt mat á það hvers vegna þér eða öðrum sem standa þér nær líður illa. Til þess að sálfræðimeðferð skili árangri er nauðsynlegt að greina þá þætti sem viðhalda vanlíðaninni og bera kennsl á þau meðferðarúrræði sem henta best að hverju sinni. Greiningarviðtalið er því oftar en ekki fyrsta skrefið í sálfræðilegri meðferð. Það getur þó einnig staðið eitt og sér þegar leitað er eftir að auka skilning á vandanum eða komast að formlegri greiningu. Algengt er að fólk óski eftir greiningarviðtali vegna þunglyndis, kvíðavanda, ADHD, mikilla áhyggja, streitu, hjónabandserfiðleika og pirrings, svo dæmi séu nefnd. 

Algengara er þó fólk eigi erfitt með að átta sig á hvers vegna því líður illa. Það á erfitt með að koma orðum að vanlíðan sinni. Það veit ekki hvert það á að leita. Auk þess getur fólk staðið ráðþrota og vonlaust frammi fyrir erfiðum tilfinningavanda hjá sínum nánustu. Í slíkum aðstæðum getur greiningarviðtalið verið stökkpallur í átt að rétta úrræðinu og fyrsta skrefið í átt að betri líðan. 

Ýmsar greiningar og meðferðir

Hugræn atferlismeðferð (HAM) 

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er sú sálfræðimeðferð sem mestar rannsóknarheimildir liggja að baki í meðferð lyndis- og kvíðaraskana. Birtar hafa verið yfir 300 árangursrannsóknir um beitingu HAM við meðferð geðraskana. HAM gagnast vel við þunglyndi, almennri kvíðaröskun, skelfingarkvíða, áfallastreituröskun, áráttu- og þráhyggju, félagsfælni og sértækri fælni. Hugræn atferlismeðferð (HAM) er víða orðin fyrsta val við ýmsum vanda. 
Samkvæmt klínískum leiðbeiningum Landlæknis er HAM fyrsta meðferð við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi. Árangur af HAM við meðferð þessara raskana er í flestum tilfellum sambærilegur eða betri en árangur lyfjameðferðar. Lyfjameðferð og HAM fer ágætlega saman í sumum tilvikum eins og þegar skjólstæðingar eru að kljást við mjög alvarlegt þunglyndi. En í öðrum tilvikum bendir ýmislegt til að lyf geti truflað meðferð og mögulega dregið úr virkni HAM til lengri tíma. Þá er hætta á að einstaklingurinn tileinki lyfinu frekar en sjálfum sér árangurinn. 

Hugmyndin á bak við HAM er sú að líðan okkar og hegðun ræðst af því hvernig við túlkum ákveðin atvik eða aðstæður. Í grófum dráttum gengur HAM út á það að finna þær hugsanir sem stuðla að vanlíðan, endurmeta þær og breyta þeim og að breyta þeirri hegðun sem viðheldur vandanum. 

EMDR-Meðferð 

EMDR (Eye Movement Desensitzation and Reprocessing) er sálfræðileg meðferð upphaflega þróuð til þess að vinna úr afleiðingum áfallastreituröskunar. Rannsóknir hafa sýnt að EMDR meðferð er einnig gagnleg við smærri áföll, s.s. vegna eineltis, lágrar sjálfsmyndar og fælni svo eitthvað sé nefnt. 
Sérstaða EMDR felst í að í aðferðinni eru notaðar aðrar eldri gagnreyndar sálfræðilegar aðferðir; s.s. hugræn atferlismeðferð (HAM). EMDR snýst um að vinna úr erfiðum minningum, hugsunum og tilfinningum. Skýringin á óþægilegum tilfinningum og jafnvel líkamlegum einkennum í daglegu lífi, getur legið í gömlum, sárum minningum sem ekki hefur verið unnið úr. Þegar EMDR meðferð er beitt virðist sem heilinn skrái minningar á nýjan hátt svo að þær valdi okkur ekki lengur vanlíðan. Við upplifum að viðhorf okkar taki breytingum, tilfinningalegur sársauki minnkar eða hverfur og líkamlegar upplifanir tengdar minningunum hverfa. Að lokum eru svo bjargráð til framtíðar virkjuð. 

EMDR er einstaklingsmeðferð fyrir fólk sem orðið hefur fyrir erfiðri reynslu sem truflað hefur líf þess í lengri tíma og jafnvel árum saman. 
Sálfræðingurinn fylgir sérstöku handriti með ákveðnum leiðbeiningum. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um hvaða minningu skuli vinna með, er minningin metin á kerfisbundinn hátt áður en úrvinnslan hefst. Við úrvinnslu eru fyrst og fremst notaðar augnhreyfingar en einnig annað tvíhliða áreiti svo sem að slá létt á sitt hvort hnéð eða fylgja punkti sem hreyfist frá hægri til vinstri. Í byrjun getur meðferðin reynst þungbær því minningin kemur oft sterkt í hugann en þegar líður á meðferðina minnka óþægindin og sársaukinn um leið og minningin fær nýja merkingu sem tengist nýjum hugsunum og tilfinningum. 
Það fer eftir alvarleika áfalla og einkenna hversu lengi úrvinnslan stendur yfir. Flókin áföll eða minningar geta tekið langan tíma og þurft marga meðferðartíma. 

EMDR meðferð hefur að jafnaði sýnt jafngóðan árangur og aðrar áfallamiðaðar nálganir. Bisson o.fl (2007) greindu 38 rannsóknir um áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð með einstaklingum, hugræna atferlismeðferð í hóp, EMDR og streitustjórnun. Niðurstöður Bisson og félaga sýndu fram á að EMDR og áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð virkuðu betur en aðrar meðferðir við áfallastreituröskun og ætti að mæla með þeim sem fyrsta meðferðarform við áföllum. Bisson, J. I. (2007). Psychological treatments for chronic post-traumatic stress disorder: Systematic review and meta-analysis. The British Journal of Psychiatry, 190, 97-104. 

Greiningar á athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) 

Hjá sálfræðingunum er hægt að fá greiningu á athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) fyrir fullorðna. Sálfræðingur leggur fyrir greiningarviðal og skoðar vel þroskasögu og skólagöngu óháð aldri þess sem er í greiningarferlinu. Endanleg greining fer svo fram í samstarfi við lækni, barnalækni eða geðlækni. 

Í fyrsta tímanum eða þegar vísað er á sálfræðing sem sinnir greiningunni er gerð skimun en greining er ekki gerð nema einkennin virðast hamlandi. Nánari greining leiðir svo í ljós hvort um sé að ræða röskun sem samræmast greiningarskilmerkjum ADHD. 

Erfitt er að segja til um þann tíma sem greiningin tekur þar sem það er einstaklingsbundið. Við mat á fullorðnum er lagt mat á hvort þörf sé á greindarprófi í hverju tilfelli. Mismikil vinna fer í að skoða hvort aðrar orsakir (t.d. þunglyndi eða áfallasaga) geti skýrt þau einkenni sem um ræðir. Í greiningu hjá fullorðnum er mikilvægt að hafa góða upplýsingagjafa sem geta lýst hegðun á aldrinum 5-12 ára, t.d. foreldra, systkini eða gamla kennara viðkomandi. Einkennin þurfa að hamla í fleiri en tveimur aðstæðum í lífinu (t.d. er ekki nóg að einkennin hamli einungis í vinnu). 

Athyglisbrestur og ofvirkni (Attention Deficit Hyperactivity Disorder) stafar af röskun í taugaþroska. Einkennin geta hafa truflandi áhrif á daglegt líf t.d. nám, samskipti og líðan. Til að greinast með röskunina þurfa einkenni að hafa komið fram fyrir 12 ára aldur. ADHD er skipt í tvo undirflokka, athyglisbrest með ofvirkni og athyglisbrest án ofvirkni. Einstaklingar með ofvirkni og athyglisbrest eru með einkenni í báðum einkennaflokkum (ofvirkni/hvatvísi og athyglisbrestur). 

Helstu einkenni athyglisbrest án ofvirkni: 

  • Slök einbeiting, sérstaklega við verkefni sem eru krefjandi eða leiðinleg
  • Truflast auðveldlega af ýmsum ytri áreitum og eiga erfitt með að ná aftur góðri einbeitingu
  • Eiga erfitt með að hefja verkefni 
  • Forðast að gera verkefni og gera því oft verkefni á síðustu stundu 
  • Eiga erfitt með að halda reiðum á hlutunum sínum, týna hlutum eða vita ekki hvar hlutirnir eru 
  • Gera kæruleysisleg mistök t.d. í skólaverkefni vegna þess að viðkomandi náði ekki fyrirmælum 
  • Eiga erfitt með að fylgja fyrirmælum 
  • Erfiðleikar með að skipuleggja sig og áætla fram í tímann 
  • Vera gleyminn í daglegu lífi 

Helstu einkenni ofvirkni/hvatvísi: 

  • Mikil hreyfióreið 
  • Vera sífellt á iði t.d. að leika með smáhlut í höndunum eða fótleggir sífellt á hreyfingu 
  • Erfiðleikar með vera í sæti í þann tíma sem ætlast er til 
  • Mikið eirðarleysi 
  • Ókyrrð 
  • Að hlaupa um og príla óhóflega mikið 
  • Vera mjög hávær, eiga t.d. erfitt með að leika sér hljóðlega 
  • Vera sífellt á ferðinni og eiga erfitt með að slaka á 
  • Að tala mjög mikið 
  • Eiga erfitt með að róa sig niður 
  • Að gera eða segja hluti án þess að hugsa út í afleiðingarnar 
  • Að hefja verkefni án viðeigandi undirbúnings 
  • Að grípa frammí t.d. með því að svara spurningum sem er beint að öðrum 
  • Að eiga erfitt með að bíða t.d í röð