Fara á efnissvæði

EKKO stefna Heilsuverndar

Stefna Heilsuverndar gegn eineltis, - kynferðislegri & kynbundinni áreitni sem og ofbeldi.   

EKKO stefna Heilsuverndar

Heilsuvernd er framsækið fyrirtæki sem horfir stöðugt til framtíðar til að gera enn betur og leggur metnað í að starfsfólki líði vel. „Því hver dagur er dýrmætur“.

Heilsuvernd líður ekki einelti, áreitni, ofbeldi, mismunun, fordóma, hótanir eða samskiptavanda. 

Heilsuvernd leggur áherslu á að komið sé fram við allt starfsfólk af umhyggju, skilningi og virðingu. Starfsfólk allt ber ábyrgð á að byggja upp jákvæð samskipti og að hvert og eitt vöndum samskipti okkar öllum stundum.

Skilgreiningar Heilsuverndar styðjast við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. 

Einelti, áreitni, ofbeldi, hótanir og samskiptavandi/ágreiningur hefur neikvæð áhrif á samheldni í starfsmannahópnum og er slík hegðun líkleg til að brjóta niður sjálfstraust, takmarka getu fólks til að sinna starfi sínu vel og ná árangri í starfi auk þess sem það hefur neikvæð áhrif á starfsanda.  

Heilsuvernd hefur sett sér markmið um að starfsfólk tileinki sér að fylgja og tilkynna slík mál samkvæmt eftirfarandi boðleiðum sé um mögulega EKKÓ upplifun að ræða.   

Heilsuvernd tekur mið af 2.gr. jafnréttislaga þegar kemur að skilgreiningum á mismunun, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni.  

Skilgreiningar á einelti

Einelti: „Óviðeigandi og ósæmandi síendurtekin hegðun sem erfitt er að verjast og niðurlægir, móðgar, særir, mismunar, ógnar og/eða veldur vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Hér er átt við endurtekið andlegt eða líkamlegt ofbeldi sem beinist gegn einum eða fleiri aðilum á vinnustaðnum.“

Rafrænt einelti: „Rafrænt einelti af hálfu einstaklings eða hóps, fer fram á samfélagsmiðlum eða í einkaskilaboðum, tölvupósti eða spjallforritum  og felur með sér notkun upplýsinga sem er fjandsamleg og er ætlað að skaða aðra. Rafrænt einelti er síendurtekin meðvituð og árásargjörn hegðun einstaklings eða hóps í garð annars, þar sem eineltið byggir á áreitum, hótunum eða niðurlægingu gagnvart  þolandanum sem getur ekki/illa varið sig sjálfur. Hatursfullir tölvupóstar eða ógnandi smáskilaboð, slúður eða sögusagnir á samfélagsmiðlum falla hér einnig undir.“

Skilgreiningar á áreitni

Áreitni & hótanir: „Munnlegar og/eða skriflegar athugasemdir sem meiða, beinar eða óbeinar hótanir, líkamsmeiðingar af einhverjum toga og önnur óviðeigandi og ósæmandi hegðun.“

Kynferðisleg áreitni: „Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.“

Kynbundin áreitni: „Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.“

Skilgreiningar á einelti og/eða áreitni eiga ekki við um óleystan samskiptavanda, skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli tveggja eða fleiri einstaklinga. 

Skilgreiningar á ofbeldi 

Ofbeldi: „Ofbeldi eru athafnir sem valda öðrum einstaklingi sársauka, andlegum eða líkamlegum, án tillits til þess hvort um er að ræða ásetning eða ekki.“

Kynbundið ofbeldi: „Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.“

Skilgreiningar á hótunum 

Óbein hótun:  „Í þeim tilvikum þar sem starfsmanni er ógnað en hótun er ekki sett fram með skýrum hætti. Sá sem hótar kemur ekki fram undir nafni og því ekki hægt að rekja hótun til aðila.“

Felur yfirleitt með sér skírskotun í hugsanlegt ofbeldi/líkamsmeiðingar án þess að neitt ákveðið sé skilgreint eða rekjanlegt.

Bein hótun: „Hótun telst bein þegar starfsmanni er ógnað af aðila eða aðilum sem kemur/koma fram undir nafni. Hvort sem um er að ræða óviðeigandi orðaflaum, hótanir um líkamstjón, eignameiðingar eða annað sem ógnað getur öryggi starfsmanns (innan og utan vinnu eða á heimili viðkomandi), ofbeldi er beitt m.a. með handalögmáli eða sambærilegu af aðila.“

Símtal/SMS/Tölvupóstur eða aðrar skriflegar hótanir á samfélagsmiðlum þar sem aðili kemur fram undir nafni, hægt er að rekja netfang, símanúmer eða annað beint til aðila flokkast einnig hér undir.

Skilgreiningar á mismunun 

Mismunun: „Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð vegna kyns en annar einstaklingur fær, hefur fengið eða myndi fá við sambærilegar aðstæður, eða þegar að því er virðist hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kemur verr við einstaklinga af einu kyni fremur en öðru.“

Skilgreiningar á samskiptavanda/ágreiningi

Samskiptavandi/ágreiningur

Flestir hafa upplifað að gera mistök í samskiptum, til dæmis ef við misskiljum hlutina, erum ekki sammála eða viljum fá okkar sjónarmið fram. Mikilvægt er að hafa í huga, að við getum verið ósammála samstarfsaðilum eða yfirmanni okkar, en okkur ber að vinna saman og eiga í góðum samskiptum þrátt fyrir það.

Neikvæð samskipti geta valdið vanlíðan en eru alla jafna ekki rót að einelti og/eða áreitni.

Samskiptavandi og/eða ágreiningur: „Þegar aðilar sem þurfa að ræða reglubundið saman, leggja ekki við hlustir, eða misskilja hvor annan, getur orðið samskiptavandi, ágreiningur eða árekstrar í samskiptum. Ólík sjónarmið geta jafnframt verið rót vandans þar sem hvorugur aðilinn er opin/n fyrir því að víkja frá sjónarmiði sínu“.

Ef starfsmaður telur um samskiptavanda eða ágreining að ræða er farsælast að ræða það beint við þann sem um ræðir. Treysti starfsmaður sér ekki til þess, skal ræða við næsta yfirmann sem vinnur þá að lausn málsins með viðkomandi. Samskiptavandamál og ágreiningur eru alla jafna auðleyst, ef fólk talar saman af einlægni og með opinn hug.

Telji starfsmaður sig upplifa samskiptavanda eða ágreining sem veldur viðkomandi vanlíðan, og þar sem viðkomandi hefur rætt það við sinn yfirmann, án lausnar á málinu, skal tilkynna það til mannauðsstjóra eða öryggisnefndar.

Leiðir til að tilkynna mál

Leiki grunur á að upplifun starfsmanns geti fallið undir einhverja af framangreindum skilgreiningum skal tilkynna það með einni af eftirfarandi leiðum: 

 • Hafa samband við mannauðsstjóra. Mannauðsstjóri gætir fyllsta trúnaðar þegar kemur að öllum málum þessa málaflokks og tekur engin mál áfram í ferli, nema með fullu samráði viðkomandi.
 • Senda póst á netfang mannaudur@hv.is og óska eftir að mál sé tekið til skoðunar.
 • Tilkynna mál til öryggisnefndar Heilsuverndar öryggi@hv.is.
 • Leita aðstoðar hjá trúnaðarmönnum stéttarfélaganna.

Unnið er með sérhvert tilfelli fyrir sig og hlutaðeigandi aðilar studdir til að leysa úr málum. 

Í stærri málum eða að mati öryggisnefndar að það þyki ástæða til, er utanaðkomandi sérfræðingur fenginn til aðstoðar við úrlausn mála. 

Öryggisnefnd Heilsuverndar

Öryggisnefnd Heilsuverndar starfar þvert á stofnanir þegar mál af þessum toga eru tilkynnt. Öryggisnefndin er skipuð eftirfarandi aðilum sem funda þegar mál eru tilkynnt og taka ákvörðun um næstu skref og meðhöndlun mála.

Öryggisnefnd fer með allar tilkynningar sem berast sem trúnaðarmál.

Ferlið – mál tilkynnt

Við tilkynningu á meintu máli tengt einelti, áreitni, ofbeldi, hótunum, samskiptavanda/ágreiningi fer eftirfarandi ferli af stað.

 1. Tilkynning um einelti, áreitni, ofbeldi, hótanir eða samskiptavanda
  Einelti og áreitni er ekki einkamál geranda og þolanda heldur málefni sem varðar velferð starfsfólks í starfi. Sá aðili sem fær tilkynningu um einelti eða áreitni ber skylda til að bregðast við eins fljótt og kostur er og tilkynna málið með einum af eftirfarandi hætti samkvæmt þeim boðleiðum sem um slíkt gilda.
  Öll mál þar sem grunur leikur á að um einelti/áreitni eða samskiptavanda sé mögulega að ræða, þarf að tilkynna svo hægt sé að vinna að úrlausn og velferð aðila. 
 2. Teymi sett saman
  Öryggisnefnd Heilsuverndar vinnur með allar tilkynningar sem berast.
  Í kjölfar tilkynningar fundar teymið fundar og tekur ákvörðun um næstu skref. Í einhverjum tilvikum getur teymið óskað eftir að aðili úr rekstrareiningu þeirri sem tilkynning kemur frá, komi tímabundið að teyminu til að aðstoða við greiningarvinnu varðandi málið.
  Eftir atvikum eru utanaðkomandi sérfræðingar fengnir að teyminu.
  Öryggisnefnd fer með allar tilkynningar sem berast sem trúnaðarmál.
 3. Greiningarvinna
  Greiningarvinna felur í sér gagnaöflun tengt málinu. Getur þar verið um tölvupóstsamskipti að ræða, eða viðtöl við  þolanda og geranda. Teymið safnar öllum upplýsingum og gögnum sem snúa að málinu.
  Mannauðsstjóri heldur utan um greiningarvinnu og mótar tillögur með öryggisnefnd að næstu skrefum.
  Ef þörf er talin á, er hlutlaus utanaðkomandi aðili fengin/n að greiningarvinnu. 
  Málsaðilar eru því næst boðaðir á fund (bæði meintur gerandi/gerendur og þolandi/þolendur), hvorn/hvern í sínu lagi. Þar gefst aðilum máls tækifæri til að tjá sig og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Mikilvægt er að fá fram sem skýrasta mynd af því um hvað er að ræða. 
  Hvert og eitt mál sem kemur upp er einstakt og er meðhöndlað í samræmi við það.
 4. Niðurstaða
  Málaðilar kallaðir á fund þar sem þeim er gerð grein fyrir niðurstöðum greiningarvinnunnar og afhent greinargerð tengt málinu. Það getur reynst málsaðilum erfitt ef niðurstaðan hugnast þeim ekki eða er ekki eins og þeir hefðu óskað sér.
  Þá er æskilegt að koma með tillögu að lausnavinnu beggja aðila sem leið til að ná sáttum. Lausnavinna miðar að því að finna viðeigandi úrlausnir sem málsaðilar geta sætt sig við.
  Lausnavinna miðar alltaf að því að báðir/allir málsaðilar séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að ná sátt í málinu. Ekki er sjálfgefið að aðilar nái saman um lausnasamkomulag, til þess þurfa báðir/allir aðilar máls að skoða ólík sjónarmið út frá niðurstöðum greiningarvinnunnar.   
  Sammælist hlutaðeigandi málsaðilar um tillögur lausnavinnu og sáttatillögu, skal draga upp sáttasamning sem báðir aðilar undirrita og gefa samþykki sitt fyrir að fylgja eftir. Meta þarf hvort sáttasamningi er framfylgt með reglubundnum hætti.
 5. Eftirfylgni
  Öryggisnefnd skal hafa eftirfylgni í a.m.k. 4 vikur eftir að niðurstaða máls liggur fyrir og sérstaklega ef um lausnavinnu eða sáttasamning var að ræða við kynningu á niðurstöðum greiningarvinnunnar.

  Eftirfylgni miðar að því að tryggja bætta líðan málsaðila og að koma í veg fyrir að eineltis- eða áreitni hegðun endurtaki sig. 
 • Eftir mánuð: Mannauðsstjóri boðar hvern málsaðila fyrir sig á fund til að kanna stöðu mála. Komi í ljós að einelti, ofbeldi, áreitni eða vanlíðan eigi sér ennþá stað, skal greina vandann og kalla utanaðkomandi ráðgjafann til fundar með málsaðilum til að fara yfir næstu skref.
 • Eftir þrjá mánuði: Mannauðsstjóri boðar málsaðila á fund til að kanna stöðu mála aftur og ef allt er í eðlilegum farvegi telst málsmeðferð lokið.  

Séu vísbendingar um að eineltis- eða áreitni hegðun sé enn til staðar meðan á eftirfylgni stendur er málið tekið upp að nýju með sama hætti og skilgreint er í lið 3 og hefja greiningarvinnu á ný.

Það er afar mikilvægt að bjóða meintum þolanda/geranda sálfræðistuðning meðan á þessu ferli stendur. Hafa skal samband við mannauðsstjóra sem hefur milligöngu um slíkan stuðning.


Útgáfa: 1.0
Dags.: 12.09.2023