Fara á efnissvæði

Óásættanleg staða - óskað eftir svari frá Sjúkratryggingum

Skjólstæðingar þessara frábæru lækna á Akureyri skora á Sjúkratryggingar sjálfar. Þetta hefur líklega ekki gerst gerst áður með þessum hætti hérlendis.

Óásættanleg staða - óskað eftir svari frá Sjúkratryggingum

Afar áhugavert að sjá þetta, skjólstæðingar þessara frábæru lækna á Akureyri skora á Sjúkratryggingar sjálfar. Þetta hefur líklega ekki gerst gerst áður með þessum hætti hérlendis. Með öllu ótengt okkur og að eigin frumkvæði skjólstæðinganna sjálfra sem í dag telja nálægt 1000 á Akureyri og fer fjölgandi. Það eru nálægt 4.5% íbúa bæjarins.

Sú staða sem er uppi er óásættanleg fyrir alla og ekki síst þá sem óska eftir þjónustu. Heilsugæslunni Urðarhvarfi var meinað að opna fyrir móttöku lækna á Akureyri á Læknastofum Akureyrar fyrir þá sem eru skráðir í samlag stöðvarinnar með bréfi frá Sjúkratryggingum dags. 23.2.2024. 

Það er lögum samkvæmt óheimilt að hafna skráningu skjólstæðinga á heilsugæslustöðvar og er ekki mögulegt að hafna þjónustu né afskrá skjólstæðinga af stöð. Það að hafna því að geta veitt hinum skráðu þjónustu stenst að okkar mati engan veginn og þarf að útkljá með formlegum hætti. Læknafélag Íslands er okkur sammála í þessum efnum.

Forsvarsmenn heilsugæslunnar Urðarhvarfi áttu fund með heilbrigðisráðherra vegna málsins 20.3 síðastliðinn og sendu í kjölfarið Sjúkratryggingum bréf með ósk um formlegar viðræður þann 22.3.2024. Það bréf hefur verið ítrekað í nokkur skipti, en án þess að svar hafi borist um fund eða viðræður. Við gerum athugasemd við það að erindi okkar sé ekki svarað.


Þá hefur Heilsugæslan í Urðarhvarfi óskað formlega eftir því við Sjúkratryggingar að taka til efnislegrar meðferðar heimild stöðvarinnar til þess að hafna skráningu utan þjónustusvæðis hennar sem og að stöðinni sé heimilt að afskrá skjólstæðinga að sama skapi.Hér er um að ræða grundvallar mál um þjónustu og möguleika heilsugæslustöðva til að sinna skráðum skjólstæðingum sínum, eða eftir atvikum hafa áhrif á það hvernig hægt er að sinna þeim. Ljóst er að réttur sjúklinga er mikill að fá að velja sér sinn þjónustuaðila. 

Niðurstaðan getur einungis orðið annað af tvennu, að Sjúkratryggingar heimili læknunum að sinna sínum formlega skráðu skjólstæðingum og þeim sem eftir þeirra þjónustu falast, eða að heimila Heilsugæslustöðinni að hafna skráningum og afskrá skjólstæðinga sem stöðin getur ekki sinnt nema að takmörkuðu leyti. 


Við tökum það skýrt fram í okkar umleitunum við Sjúkratryggingar og Heilbrigðisráðuneytið að Heilsugæslan í Urðarhvarfi er að leita leiða til að veita læknisþjónustu. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það muni þurfa að koma til útboðs nýrrar heilsugæslustöðvar eigi að sinna allri þeirri þjónustu sem slík stöð veitir. Við munum taka þátt í slíku útboði komi til þess. 


Þangað til viljum við geta eftir fremsta megni og án kostnaðarauka fyrir hið opinbera sinna skráðum skjólstæðingum okkar.

Læknafélagið gerir ekki athugasemdir við starfsemi Heilsuverndar á Akureyri